Þrek og tár

Það verður bara að segjast eins og er í hreinskilni að ég er nánast mjög djúpt snortinn í augnablikinu.  Þannig háttar nú til að vinkona mín góð og göfuglynd lánaði mér fyrir skemmstu videóspólu er innihélt upptöku af leikritinu Þrek og tár sem sýnt var 90 sinnum í Þjóðleikhúsinu á árunum 1995-1997.  Upptaka þessi er úr ríkissjónvarpinu og var verkið sýnt í beinni útsendingu á sínum tíma.  Ég hafði aldrei séð þetta leikrit í þessari útsetningu áður og var löngu kominn tími til að ég sæi þetta.  Mig minnir að það hafi verið árið 2002 sem leikdeild UMF Skallagríms setti þessa sýningu upp í Borgarnesi, í gamla mjólkursamlaginu við Engjaás í leikstjórn Skúla Gautasonar.  Eftirminnilega tók ég þátt í þeirri uppfærslu og fékk ég það hlutverk að leika kriminjálinn Gunna gæ í það skiptið.  Þetta er einhver mesta áskorun sem ég hef tekist á hin síðari ár, alveg gríðarlega erfitt ferli allt saman og gekk á ýmsu.  En mikið rosalega var það innilega gaman.  Að mati þeirra er sáu sýninguna okkar, en heildartala áhorfenda var um 1100, þótti ég fara á kostum í hlutverki mínu og var ég margsinnis spurður að því hvort ég ætlaði nú ekki í leiklistarskólann.  Uppsetning okkar er einhver sú eftirminnilegasta hin síðari ár í Borgarnesi, ekki síst fyrir þær sakir að þetta var síðasta leikritið er Óli heitinn Gunnars lék í, blessuð sé minning hans.  Leikmyndin okkar og það leikhús er við byggðum inni í Engjaáshúsinu var mögnuð og það er ógleymanlegt er ég keyrði ´57 módelið af amerískum kagga inn á sviðið og hengdi mig svo í lokin á leikritinu   Þrek og tár er eitthvert best skrifaða og skemmtilegasta leikrit er gert hefur verið á íslenskri tungu.  Sagan magnþrungin, dramatísk og á köflum alveg drepfyndin.  Svo er tónlistin í verkinu framúrskarandi og flott. 

Upptaka af okkar uppfærslu er til á einhverjum góðum stað og nú er mig farið að klæja í fingurna að komast yfir þá upptöku til að bera þessar útsetningar saman og rifja upp frábærann tíma.  Alveg morgunljóst að ég mun ganga í það strax á morgun að leita þetta uppi.  Svo er bara að drífa í að setja upp leikrit hér í bæ sem fyrst. 

  


Kvikmyndarýni - Okkar á milli

Undarfarnar vikur hafa ég og vinir mínir stundað ákveðna dægrastyttingu og þá jafnan með öl og veigar við hönd í góðra vina hóp.  Afþreying þessi felst í því að ég hef farið á Héraðsbókasafn Borgarness og tekið á leigu gamlar íslenskar bíómyndir sem við höfum svo barið augum saman.  Höfum nú þegar horft á 3 myndir og datt mér í hug að það yrði enn og meiri afþreying að koma með gagnrýni hér á síðu vorri. 

    Sú mynd sem við horfðum á í kvöld og mín fyrsta gagnrýni fjallar um er myndin Okkar á milli í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar.  Myndin er frá árinu 1982 og segir á hulstri myndarinnar að þetta sé önnur langmynd Hrafns, en áður hafði hann gert Óðal feðranna árið 1980. Með aðalhlutverk í myndinni Okkar á milli fara m.a Benedikt Árnason, Andrea Oddsteinsdóttir, Valgarður Guðjónsson (söngvari Fræbbblanna) og María Ellingsen.

    Myndin hefst á því að Bemjamín nokkur er staddur í gufubaðinu á Laugarvatni ásamt vini sínum.  Gerist þá sá válegi atburður að vinur Benjamíns tekur upp á því að drepast bara uppúr þurru.  Kviss bamm búmm og kallinn lá steindauður í gufubaðinu.  Benjamín hljóp allsnakinn út í geðshræringu sinni með sprellann flagsandi millum fóta sér.   Ekki skildi ég mikið í því sem gerðist í kjölfari, en náði því þó að Benjamín títtnefndur starfar við að skipuleggja vatnsaflsvirkjanir.  Snemma í myndinni kemur María Ellingsen til sögunnar, en hún leikur dóttir mannsins er lést í gufubaðinu.  Benjamín reynir eitthvað að hugga hana í hennar sorgum og þótti honum það góð hugmynd að rekkja hjá henni.  Skömmu síðar er hann mættur á leiksýningu hvar dóttir hans flettir sig klæðum og fyrr en varir er hann kominn í rúmið með konu sinni og stundar með henni villta ástarleiki.Ekki var þó hægt að skilja þessi atlot vel því ýmist var hann að smollinkría konu sína, dóttir sína ellegar stúlku leikna af Maríu Ellingsen.   Kallinn missir svo smátt og smátt vitið, að því er virðist að ástæðulausu.  En þrátt fyrir miklar rökræður okkar félaganna tókst okkur ekki að botna frekar í söguþræði myndarinnar.  Mynd þessi er gerð þegar pönkið var í blóma og kemur það glöggt fram í henni.  Lög með Fræbbblunum eru spiluð undir í hvívetna og eins fer aðal sögupersónan á tónleika með pönkhljómsveit hvar þeir Pollock bræður voru fremstir meðal jafningja

 

Oft hef ég séð og heyrt rætt og ritað um hver sé versta íslenska bíómyndin.  Hafa þá iðulega verið þar efst á blaði myndir eins og Blossi og Nei er ekkert svar ásamt fleiri myndum.  Ég minnist þess þó ekki að hafa séð þar talað sérstaklega um þessa kvikmynd er við sáum í kveld.  Sem er hreint með ólíkindum.  Það er engin furða að nokkur maður kannist við nafnið Benedikt Árnason úr leikaraheiminum, enda frammistaða hans í þessari mynd svo slök að það nær ekki nokkurri átt.  Aðrir leikarar voru álíka slakir ef undan eru skilin María Ellingsen og Valgarður Guðjónsson.  María var auðvitað kornung þarna og átti eftir að geta sér gott orð síðar á ferlinum.  Hún átti ekki í nokkrum vandræðum með að fletta sig klæðum og það verður að segjast eins og er að hápunktur myndarinnar og ýmislegt fyrir neðan þirnd reis ansi hátt var er hún strípaði sig og stundaði innileg ástaratlot með áður nefndum Benjamín.  Valgarður pönkaði svo myndina skemmtilega upp og kom sterkur inn.  

Það var ansi erfitt að greina á milli hvort hlutir væru að gerast eða hvort Benjamín væri að dreyma í myndinni.  Tónlistin var alveg hrottafengin og jaðraði við andlega slátrun.  Guttavísur og þjóðsöngurinn spilaðar á skemmtara ala Bjarni Valtýr er eitthvað sem er ekki fólki bjóðandi.  Söguþráðurinn óskýr og illskiljanlegur.  Ég spyr bara:  Hvað var Hrafn Gunnlaugsson að reykja þegar hann gerði þessa mynd?

 

Annars gaman að sjá þegar nafn mitt er til á hinni óþrjótandi bíomyndasíðu www.imdb.com.  Reyndar er ég skráður sem Ragnar L Gunnarsson og að ég hafi leikið í Hrafninn flýgur árið 1984.  Það hefur alveg gleymst að segja mér frá því og ekki veit ég fyrir hvað L-ið stendur.  Hitt er rétt að mér bregður fyrir í Stellu í framboði og er nafnið mitt á credit listanum þar 

 

 


Ferðasaga til næsta bæjar

Það er nú þónokkuð um liðið frá því ég sté fætur á skerið eftir að hafa ferðast heims um ból og ég held það sé kominn tími á ferðasöguna, sem þeir er hafa ekki hitt mig eftir heimkomuna bíða líklegast spenntir eftir.  Þar sem ég var í 5 vikur þarna í Mexico D.f ætla ég nú bara að stikla á stóru og smella nokkrum myndum með.  En þar sem ég á afar erfitt með að vera stuttorður vil ég vara lesendur við því að þetta gæti orðið löng frásögn.

 Útferðin

Þetta byrjaði s.s að ég hélt af stað frá Stormskerinu góða þann 16.nóvember s.l í hraglandis rigningu og roki.  Ferðinni heitið til New York og gekk það bara eins og í sögu (enda er þetta saga).  Eftir að hafa fyllt út ótal eyðublöð í flugvélinni, beðið í 2 tíma í immigrantinu og reddað mér leigubíl upp á hótel í NY, settist ég niður á hótelbarnum og drakk Corona í gríð meðan ég horfði á NBA leik í sjónvarpi BNA manna.  Daginn eftir ákvað ég að hvilast fram undir hádegi enda lúinn nokkuð eftir flug og tímamismun.  Upp úr hádegi var haldið af stað í hádegisverð og að redda sér leigara uppá JFK flugvöll þar sem ég átti flug til Mexico með Delta airlines.  Það gekk eins og í sögu sem og flugið sjálft.  Til Mexico city var ég svo kominn rétt fyrir miðnætti að þeirra tíma og það urðu vitanlega miklir fagnaðarfundir þegar Carmen tók á móti mér.  Það gekk reyndar ekki alveg þrautalaust fyrir sig því hún hafði beðið á vitlausu terminal eftir mér.  Eftir að hafa hringt í móður hennar reddaðist það þó og við keyrðum áleiðiðs heim í íbúð er við höfðum tekið á leigu þar í bæ.

 tunglið á hvolfi

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar keyrt var um borgina var að tunglið var á hvolfi.  Annars var það náttúrulega stærðin og fólksfjöldinnPB190102 gríðarlegi sem vakti athygli sveitavargsins úr Borgarfirði.  Fyrstu dagarnir voru teknir rólega.  Kíkt á miðbæinn og á risastóra útimarkaði þar sem var hægt að kaupa allan andskotann.  Þessir markaðir virtust vera á öðru hverju götuhorni og voru flestir á stærð við meðalstóra stórverslun á Íslandi.  Þá fékk ég að berja augum er indjánar af Azteca þjóðflokki léku listir sínar á götum úti, börðu bumbur, dönsðu berfættir á lendarskýlum, mögnuðu seið og blésu illdauna reyk yfir þá er vildu losna við illa vætti úr sálu sinni.  Sannarlega sérstök upplifun.  Einnig var kíkt á söfn og m.a skoðað Frida Kahlo safnið sem var mjög fróðlegt

 

 

Pumas 

Strax fyrstu vikuna var ákveðið að fara á knattspyrnuleik á Ólympíuleikvanginum þar sem Pumas tóku á móti Toluca í 8 liða úrslitum deildarinnar.  En Pumas er einmitt eitt vinsælasta liðið í höfuðborg Mexico og er Carmen dyggur stuðningsmaður þess liðs.  Ég var ekki lengi að fjárfesta í búningi liðsins er á völlinn var komið.  Leikurinn var ógleymanleg upplifun fyrir undirritaðann sem hafði ekki áður farið á tuðrusparksleik erlendis.  Ca 50 þúsund manns á vellinum og alveg brjáluð stemming

 Fyrst helgina mína á erlendri grundu tóku strax við stórviðburðirnir.  Fyrst var veisla þar sem fagnað var opnun nýrrar verslunar er vinkona Carmenar var að opna.  Að henni lokinni var haldið í brúðkaup hvar var fagnað að kaþólskum sið.  Tequila var boðið mannskapnum í hvívetna og víkingurinn frá landi ísa og elda þurfti vitanlega að sýna hvað í honum bjó og drakk þann görótta mjöð líkt og enginn væri morgundagurinn.  Þegar nokkuð var liðið á veisluna tók brúðurin á það ráð að klifra upp á stól og gumi hennar hóf að fálma upp lærin á henni í leit að sokkabandi.  Bandi þessu er svo kastað útí sal hvar allir karlmenn í veislunni keppast við að grípa það.  Sá er grípur bandið góða á víst að vera næstur til að ganga í hnapphelduna en þetta ku vera vinsæll siður í kaþólskum brúðkaupum.  Skemmst er frá að segja að ég greip bandið og hlaut ógnar mikið fagn að launum

 

Ég stuttorður?... 

 Ég ætlaði að vera stuttorður en það virðist ganga treglega.  Í stuttu máli þá fór ég í svakalegt partý á risastóru heimili hárgreiðslumeistara Carmenar þar sem menn drukku Tequila og Mescal úr mjólkurglösum og ekki gat ég verið minni maður. Fetaði í fótspor Egils Skallagrímssonar, drakk mjöð varð ölur, dansaði súludans og kvað ferskeytlur á spænsku.

Virkir dagar fóru yfirleitt í það að kynna mig fyrir þarlendri menningu.  Ég sá Mariachi spila á götum úti, borðaði taco og tortilla og drakk bjór á kvöldin, enda kostaði kippan bara 200 kr!  Ég fór einnig á einhverskonar þjóðminjasafn Mexico og fræddist um sögu þeirra, fór á útgáfutónleika hjá Mexíkóskum kántrý söngvara og áfram mætti telja.  

fræðileg Fullnæging! 

En hafi ég verið  uppveðraður af þessu öllu saman þá var það barnaleikur við hliðina á knattspyrnuleiknum sem ég barði augum er ég fór á Estadio Azteca leikvanginum.  Sá ágæti leikvangur rúmar um 115 þúsund áhorfendur og ku vera 4 stærsti völlur í veröldinni.  Völlurinn var nánast alveg troðfullur er við sáum Américas frá Mexico spila gegn Arsenal frá Argentínu.  Ég sagði við einn vin minn að þetta hafi verið íþróttafræðileg fullnæging.  Þess má geta að á þessum velli var það sem Diego Maradona skoraði með hönd guðs hér forðum daga

 

 

  

 

 

 

Við fórum svo í bátsiglingu í góðra vina hópi um ársprænu í Mexico kvöld eitt.  Landslag og upplifun er minnti helt á myndir sem maður hefur séð af Feneyjum.  Margt annað var brallað og vinir Carmenar voru duglegir að heimsækja okkur og verja tíma sínum með okkur og var það vel.

 Baugur á fingur

7. desember var svo komið að stóru stundinni.  Kvöldið byrjaði á því að við fórum á lucha libre kvöld og sáum mistico berjast.  Að keppni lokinni héldum við á fínan veitingastað er hafði útsýni yfir alla borgina og var staðsettur á 15. hæð í byggingu einni.  Þar var kvöldverður snæddur og er hann PC090524hafði runnið sína leið niður í iður okkar kraup ég á kné og baðst bónar og við settum upp hring.  Heitbundin höfum við verið frá þeirri stundu og var því fagnað með því að panta Don perignon kampavín á kantinn.  En bón minni var ekki lokið þar, því kvöldið eftir þurfti ég að krjúpa á kné öðru sinni og biðja föðurinn um hönd dótturinnar... á spænsku.  Það var líklega erfiðasta og mest stressandi stund sem ég hef upplifað á ævinni.  Ekki nóg með að ég væri ómálga á spænska tungu heldur var öll fjölskyldan mætt á svæðið og hlýddi á bón mína.  Tengdó tók bón minni eins og best verður á kosi og hrósaði mér fyrir spænsku kunnáttu mína.  Að því loknu var slegið upp matarveislu mikilli og skálað í Tequila

 PC090533

Mér var því gríðarlega létt er þessu öllu var lokið og ánægjan skein úr hverju andliti.  Daginn eftir var svo haldið í ferð út fyrir Mexico city og pýramídarnir skoðaðir og við gerðum okkur lítið fyrir og hlupum uppá einn slíkann 

 

 

 

 

 

flest tekur enda... því miður 

Annað brullaup var svo á dagskránni síðustu helgina mína og einnig fórum við í svona túrista rútu og skoðuðum borgina með augum alvöru túrista.  

Í stuttu máli má svo segja að heimferðin hafi gengið býsna vel.  Sex tíma flug til NY, 7 tíma bið og bjórdrykkja þar og 6 tíma flug heim.  Var svo böstaður með 4 Tequila flöskur í tollinum og komst öldungis og einungis með 1 slíka inn í landið við heimkomuna.  

 

Þess má geta að það er komin dagsetning á brúðkaupið.  2. ágúst 2008 í Mexico hefur verið staðfestur og búið að bóka kirkjuna.  Carmen flytur svo til Íslands í kjölfarið og veisla verður haldin á Fróni fyrir þá sem missa af bátnum til Mexico 


Ég er sannspár! Til hamingju Margrét Lára

Ég var að skeggræða við vini mína í gærkvöld um hver hlyti þetta sæmdarheiti.  Ég hallaðist helst að Margréti, Jóni Arnóri og Rögnu en sagði þó að ég vildi helst sjá Margréti verða fyrir valinu.  Bjóst þó við einhverjum skandal eins og að handboltamaður eða knattspyrnukarlmaður yrði valinn.  En mér varð að ósk minni og spá mín rættist

En ég hef mikið velt vöngum og öngum yfir þessum topp 10 lista, mér þykir hann algjör skandall.  Hvar er Helena Sverrisdóttir, besta körfuboltakona sem Ísland hefur alið?  Hvar eru allir þeir íþróttamenn sem tóku þátt í Special olympics í Kína og sópuðu að sér verðlaunum?  


mbl.is Margrét Lára íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heill a hufi i Mexico

Laumadi mer inn a internet kaffihús hér í bae í dag.  Allt gengid samkvaemt óskum.  Ferdalagid út gekkk ljomandi vel og mér er afar vel tekid herna.  Hitinn er ca 20-25 hvern einasta dag og varla hefur dropad úr lofti.  Búinn ad brallla ymislegt herna sem er efni i miklu lengri pistil.  Vildi bara lata vita af mér og ad allt gengi vel

 

Kvedja fra Mexico City


Farinn

Jæja þá er ég farinn af skerinu.  Máski viðeigandi að ég yfirgefi landið á degi íslenskrar tungu sem er í dag.  Held til New York síðdegis í dag og verð þar á hóteli næturlangt.  Flýg svo til Mexico D.F um miðjan dag á morgun að amerískum tíma.  Mun reyna að vera í netsambandi þarna úti og kíkja á MSN og smella inn færslu hér öðru hvoru og láta vita af mér.

En ég kem aftur... 21.des

Adios 


Býr Íslendingur hér... eða í New York?

Ég þótti nokkuð heppinn í byrjun október s.l er mér barst bréf frá Tryggingastofnun ríkisins með uppgjöri ársins 2006.  Heppnin fólst í því að ég átti inni hjá þeim 60 þúsund krónur eða þar um bil.  Meðfylgjandi uppgjöri þessu var tekjuáætlun mín fyrir 2006.  Áætlun þessi gildir fyrir árið 2007 þar eð ég gerði öngvar athugasemdir við hana um s.l áramót, eingöngu vegna þess að ég hafði og hef ekki slíka skyggnigáfu að geta séð fram í tímann með laun mín.  Þar sem ég hafði nú þessa áætlun í höndunum ákvað ég að reikna út hvað ég væri búinn að þéna það sem af var ári og komst ég þá að þeirri niðurstöðu að ég var búinn með kvótann þann 1. nóvember.  Sem þíðir að mikinn hluta þess er ég þéna eftir þann 1.nóv þarf ég að greiða TR til baka þegar þetta ár verður gert upp.  Þar sem ég hef engann áhuga á að vinna fyrir sama sem ekki neitt, komst ég að samkomulagi við vinnuveitendur mína um að fara í launalaust leyfi fram yfir áramót.  Þarf að vísu að taka eina vakt í næstu viku og svo um jólin.

 

Þegar það var orðið ljóst að ég hefði ekkert fyrir stafni fram að jólum ákvað ég að fara á stúfana og versla mér ferð til Mexico hvar ég hyggst dvelja hjá henni Carmen minni.  Föstudaginn 16.nóvember mun ég halda af landi brott sem leið liggur til Nýju Jórvíkur (New York), þar mun ég dvelja í 1 sólarhring áður en ég flýg áfram til Mexico City.  Heimleiðis mun ég svo halda þann 20.desember.  Mér datt í hug að athuga hvort það væri einhver mér kunnugur í New York sem les þetta blogg mitt og væri tilbúinn að leiðbeina mér í NY í sólarhring.  Því varla þykir það góð Latína að sveitapilturinn ég sé að dandalast einn innan um kriminjála og misyndismenn í borg sem telur margfalt fleira fólk heldur en allt sauðfé og rjúpur á Íslandi samanlagt.  Þannig að ef einhver sem les þetta og býr þar má gjarnan hafa samband, risinn@mmedia.is

Góðar stundir 


afar athyglisvert

Langar nú að byrja á að minnast á hversu fyndin mynd þetta er af Hlyni, eins og hann hafi séð geimveru þarna á gólfinu.  Annars er staðan í deildinni býsna athyglisverð.  Keflavík með 10 stig, tvö lið með 8 stig, tvö með 6 stig og svo restin með 2 og 4 stig.  Það getur allt gerst í framhaldinu.  Tveir sigrar í röð hjá Sköllunum senda þá í toppbaraáttuna, en 2 töp í röð þýða bullandi botnbaráttu.  Held eg ýki ekkert er ég segi að deildin hafi aldrei verið eins jöfn og núna
mbl.is Snæfell hirti stigin í Hveragerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábærir útgáfutónleikar Sniglabandsins

Það þykir ekki í frásögur færandi að maður bregði undir sig betri löppinni öðru hvoru og kíki á tónleika hjá hinum og þessum hljómsveitum og trúbadorum.  Það gerðist einmitt í kvöld að ég lagði land undir hjólbarða og hélt einn míns liðs í höfuðborgina, nánar tiltekið í Borgarleikhúsið til að berja augum Sniglabandið sem hélt tónleika af tilefni útkomu plötunnar Vestur, sem kemur víst ekki út fyrr en á morgun.  Skemmst er frá því að segja að þessi konsert var í alla staði stórfenglegur.  Flutningurinn framúrskarandi og Sniglabandið algerlega bráðfyndið og maginn er allur yfirsperrtur af hlátri eftir þetta allt saman.

Sniglabandið

 En Sniglabandið voru ekki einir um hituna í kvöld, því fjöldi gesta leit við.  Áður en tónleikurinn hófst stigu 3 leikarar á svið og framkvæmdu þræl kómískan spuna á ensku sem endaði í bölvaðri vitleysu og sifjaspelli.  Fjögurra manna blásarasveit gæddi hljómsveitina auka krafti og blés í þá eldmóð.  Eins og sést á myndinni hér til hliðar voru tveir go-go gaurar í bakröddum, Sjonni Brink og Gunnar Ólafsson (sem bregður fyrir í texta lagsins Selfoss er)  Þeir tóku sig ekkert alltof alvarlega og áttu fína spretti á kantinum

 

 

 

Talað var um það fyrir tónleikana að strákarnir myndu taka eitthvað af sínum gömlu smellum og er óhætt að segja að þeir hafi staðið við það og leyst það á snilldar hátt.  þeir tóku bara 6-7 mínútna syrpu með öllum gömlu "hit"urunum og þar með var það búið.  Einn af gestum kvöldsins var gamla söngstjarnan Hjördís Geirsdóttir (hver?) og söng hún lag með Skúla Gauta sem fjallaði um það að maður eigi eigi að keyra ölvaður

PA230018

 

Eftir hlé fjölgaði svo um munaði á sviðinu.  Friðþjófur bassaleikari kallaði son sinn inn á svið til að leika á rafmagnsgítar.  Aukinheldur mættu Nylon stúlkurnar til leiks til að flytja lagið um Britney Spears.  Aldrei hefði mér getað dottið það í hug að ég myndi fíla Nylon en það hefur nú gerst, þökk sé Sniglabandinu.  Með 15 manns á sviðinu, blásarasveit, stúlknaflokk og 3 rafmagnsgítara var flutningur á laginu um Britney hreint rafmagnaður

Nylon

 

Á endanum var það þó Einar Rúnarsson hammond og harmonikkuleikari Sniglabandsins sem stal senunni er hann flutti "framtíðarlagið" Þrass meira þrass sem átti að vera mjög þungt þungarokkslag, samið eins og Gylfi Ægisson hefði gert það.  Textinn var mestmegnis svona "sjúddirarirei" og framkoman einlæg og afar óhefðbundin.  Magavöðvarnir svoleiðis stífnuðu upp og ég nánast missti þvag af hlátri.  Þettalag er þó ekki á nýju plötunni heldur verður það væntanlega á plötunni er kemur út að ári. 

PA230042

 

Takk fyrir frábæra tónleika Sniglabandið.  Þetta mun lifa í minningunni.  6 stjörnur af 5 mögulegum 


Aldrei má maður ekki neitt

Ég á það til þegar vel liggur á mér að spranga um á sprellanum einum fata í íbúðinni minni.  Og ef það liggur ofur vel á mér á ég það til að taka dansspor, sem reyndar má frekar kalla feilspor.  En skv. því sem hann Kristján frændi minn og stórbóndi á Snorrastöðum ætli að koma í veg fyrir slíkt ;)

Annars alveg yndislega sksemmtileg frétt sem lífga upp á hversdagsleikann 


mbl.is Landbúnaðarnefnd leggst gegn nektardansi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband