30.5.2008 | 01:33
Á skjálftavaktinni
Oft hefur ekkert verið að fregna úr ranni mínum. En því ber nú aldeilis öðruvísi við í dag. Ég ákvað ásamt Elínu systir minni að ganga upp á Grábrók í dag, þar sem ég hefi aldregi gengið þar upp þótti þetta nú nok fréttnæmt. Eftir röska göngu þar upp ákváðum við að aka meðfram Hreðavatni. Er þeirri ökuferð lauk var haldið út á þjóðveg og ekið heim á leið. Það hefur líklegast verið til móts við Baulu skálann sem Grábrókarganga okkar varð ekki lengur fréttaefni. Því þá heyrðum við fyrst af Suðurlandsskjálftanum sem skyggðu svo gjörsamlega á gönguferð okkar að ég sat hvummsa eftir. Aldrei fann ég fyrir því að jörðin hristist þrátt fyrir að vera afar næmur á jarðskorpuhreyfingar, skynja jafnvel lognið hreyfast.
Ég man þó eins og gerst hafi í gær hvernig því var háttað er jörð skalf á Suðurlandinu árið 2000. Ég var staddur í Straumfjarðartungu með Baldri frænda mínum þann 21.júní ef ég man rétt og höfum við sötrað allnokkra bjóra um kveldið er ég þurfti skyndilega að bregða mér á kamarinn til að skvetta þvagi og vinda reiðtygin. Hvar ég stóð og mé í klóið þótti mér undarlegt hvað vatnið í skálinni fór allt í einu að ganga í hringi og ég að hristast. Hugsaði með mér að nú væri ég búinn að þjóra ögn of mikið og tími til kominn að hægja á sér. Sem skaut þó skökku við því eigi var ég ölur er á kamarinn ég gekk. Er ég gekk aftur til stofu spurði ég frænda vorn hvort ölvaður væri ég orðinn eða hvort jarðhræringar hefðu átt sér stað. Í þann mund ég sleppti setningunni varð mér litið á stórt málverk af Snæfellsjökli á veggnum sem hékk allt í einu á skakk og skjön við raunveruleikann og áttaði ég mig þá á að stór jarðskjálfti hefði orðið. Kveikt var á gömlu gufunni og fylgst með fregnum fram eftir náttu. Svona man maður vel hvar maður var staddur þegar stór atburðir eiga sér stað. Í dag var ég staddur við Hreðavatn þegar ég fann ekki fyrir stóra skjálftanum.
Langar í lokin að óska Sigga Heiaðarri og Benný og Steina og Kristínu til hamingju, en þau hjónin og hjónaleysin eignuðust drengi með 2 daga millibili í vikunni. Mikla boldángsdrengi sem ég geri ráð fyrir að verði báðir skírðir Ragnar
Ingólfsskáli eyðilagðist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.