12.2.2008 | 02:04
Þrek og tár
Það verður bara að segjast eins og er í hreinskilni að ég er nánast mjög djúpt snortinn í augnablikinu. Þannig háttar nú til að vinkona mín góð og göfuglynd lánaði mér fyrir skemmstu videóspólu er innihélt upptöku af leikritinu Þrek og tár sem sýnt var 90 sinnum í Þjóðleikhúsinu á árunum 1995-1997. Upptaka þessi er úr ríkissjónvarpinu og var verkið sýnt í beinni útsendingu á sínum tíma. Ég hafði aldrei séð þetta leikrit í þessari útsetningu áður og var löngu kominn tími til að ég sæi þetta. Mig minnir að það hafi verið árið 2002 sem leikdeild UMF Skallagríms setti þessa sýningu upp í Borgarnesi, í gamla mjólkursamlaginu við Engjaás í leikstjórn Skúla Gautasonar. Eftirminnilega tók ég þátt í þeirri uppfærslu og fékk ég það hlutverk að leika kriminjálinn Gunna gæ í það skiptið. Þetta er einhver mesta áskorun sem ég hef tekist á hin síðari ár, alveg gríðarlega erfitt ferli allt saman og gekk á ýmsu. En mikið rosalega var það innilega gaman. Að mati þeirra er sáu sýninguna okkar, en heildartala áhorfenda var um 1100, þótti ég fara á kostum í hlutverki mínu og var ég margsinnis spurður að því hvort ég ætlaði nú ekki í leiklistarskólann. Uppsetning okkar er einhver sú eftirminnilegasta hin síðari ár í Borgarnesi, ekki síst fyrir þær sakir að þetta var síðasta leikritið er Óli heitinn Gunnars lék í, blessuð sé minning hans. Leikmyndin okkar og það leikhús er við byggðum inni í Engjaáshúsinu var mögnuð og það er ógleymanlegt er ég keyrði ´57 módelið af amerískum kagga inn á sviðið og hengdi mig svo í lokin á leikritinu Þrek og tár er eitthvert best skrifaða og skemmtilegasta leikrit er gert hefur verið á íslenskri tungu. Sagan magnþrungin, dramatísk og á köflum alveg drepfyndin. Svo er tónlistin í verkinu framúrskarandi og flott.
Upptaka af okkar uppfærslu er til á einhverjum góðum stað og nú er mig farið að klæja í fingurna að komast yfir þá upptöku til að bera þessar útsetningar saman og rifja upp frábærann tíma. Alveg morgunljóst að ég mun ganga í það strax á morgun að leita þetta uppi. Svo er bara að drífa í að setja upp leikrit hér í bæ sem fyrst.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Já, þessi sýning var MÖGNUÐ hjá okkur... Ég var reyndar ekki með í það skiptið, en ég var með síðast og ætla að vera með næst:)
Margrét Hildur Pétursdóttir, 12.2.2008 kl. 10:56
Ein hugmynd, hvernig væri að safnast saman allur sex í sveit leikhópurinn og horfum á leikritið og hlæjum af okkur sjálfum og fáum okkur bjór..?
Margrét Hildur Pétursdóttir, 13.2.2008 kl. 14:24
Raggi minn elliglöp herja á þig sem aðra en við settum Þrek og tár upp 2003 og Djöflaeyjuna 2002. Persónulega fyrir mig var Djöflaeyjan skemmtilegri (geti nú hver af hverju það er!! ) en Þrek og tár var líka yndislegt. Hitti einmitt Axel og Áslaugu á Sígunarbaróninum nú um helgina og rifjuðum við upp gamla tíma í hléinu og þar á meðal Þrek og tár tímann. Held að sami einstaklingur eigi Djöflaeyjuna og Þrek og tár og væri gaman að halda bíó og sjá þessar uppsetningar okkar jafnvel yfir góðu öli .
Ólöf María Brynjarsdóttir, 13.2.2008 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.