25.1.2008 | 01:26
Kvikmyndarýni - Okkar á milli
Undarfarnar vikur hafa ég og vinir mínir stundað ákveðna dægrastyttingu og þá jafnan með öl og veigar við hönd í góðra vina hóp. Afþreying þessi felst í því að ég hef farið á Héraðsbókasafn Borgarness og tekið á leigu gamlar íslenskar bíómyndir sem við höfum svo barið augum saman. Höfum nú þegar horft á 3 myndir og datt mér í hug að það yrði enn og meiri afþreying að koma með gagnrýni hér á síðu vorri.
Sú mynd sem við horfðum á í kvöld og mín fyrsta gagnrýni fjallar um er myndin Okkar á milli í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar. Myndin er frá árinu 1982 og segir á hulstri myndarinnar að þetta sé önnur langmynd Hrafns, en áður hafði hann gert Óðal feðranna árið 1980. Með aðalhlutverk í myndinni Okkar á milli fara m.a Benedikt Árnason, Andrea Oddsteinsdóttir, Valgarður Guðjónsson (söngvari Fræbbblanna) og María Ellingsen.
Myndin hefst á því að Bemjamín nokkur er staddur í gufubaðinu á Laugarvatni ásamt vini sínum. Gerist þá sá válegi atburður að vinur Benjamíns tekur upp á því að drepast bara uppúr þurru. Kviss bamm búmm og kallinn lá steindauður í gufubaðinu. Benjamín hljóp allsnakinn út í geðshræringu sinni með sprellann flagsandi millum fóta sér. Ekki skildi ég mikið í því sem gerðist í kjölfari, en náði því þó að Benjamín títtnefndur starfar við að skipuleggja vatnsaflsvirkjanir. Snemma í myndinni kemur María Ellingsen til sögunnar, en hún leikur dóttir mannsins er lést í gufubaðinu. Benjamín reynir eitthvað að hugga hana í hennar sorgum og þótti honum það góð hugmynd að rekkja hjá henni. Skömmu síðar er hann mættur á leiksýningu hvar dóttir hans flettir sig klæðum og fyrr en varir er hann kominn í rúmið með konu sinni og stundar með henni villta ástarleiki.Ekki var þó hægt að skilja þessi atlot vel því ýmist var hann að smollinkría konu sína, dóttir sína ellegar stúlku leikna af Maríu Ellingsen. Kallinn missir svo smátt og smátt vitið, að því er virðist að ástæðulausu. En þrátt fyrir miklar rökræður okkar félaganna tókst okkur ekki að botna frekar í söguþræði myndarinnar. Mynd þessi er gerð þegar pönkið var í blóma og kemur það glöggt fram í henni. Lög með Fræbbblunum eru spiluð undir í hvívetna og eins fer aðal sögupersónan á tónleika með pönkhljómsveit hvar þeir Pollock bræður voru fremstir meðal jafningja
Oft hef ég séð og heyrt rætt og ritað um hver sé versta íslenska bíómyndin. Hafa þá iðulega verið þar efst á blaði myndir eins og Blossi og Nei er ekkert svar ásamt fleiri myndum. Ég minnist þess þó ekki að hafa séð þar talað sérstaklega um þessa kvikmynd er við sáum í kveld. Sem er hreint með ólíkindum. Það er engin furða að nokkur maður kannist við nafnið Benedikt Árnason úr leikaraheiminum, enda frammistaða hans í þessari mynd svo slök að það nær ekki nokkurri átt. Aðrir leikarar voru álíka slakir ef undan eru skilin María Ellingsen og Valgarður Guðjónsson. María var auðvitað kornung þarna og átti eftir að geta sér gott orð síðar á ferlinum. Hún átti ekki í nokkrum vandræðum með að fletta sig klæðum og það verður að segjast eins og er að hápunktur myndarinnar og ýmislegt fyrir neðan þirnd reis ansi hátt var er hún strípaði sig og stundaði innileg ástaratlot með áður nefndum Benjamín. Valgarður pönkaði svo myndina skemmtilega upp og kom sterkur inn.
Það var ansi erfitt að greina á milli hvort hlutir væru að gerast eða hvort Benjamín væri að dreyma í myndinni. Tónlistin var alveg hrottafengin og jaðraði við andlega slátrun. Guttavísur og þjóðsöngurinn spilaðar á skemmtara ala Bjarni Valtýr er eitthvað sem er ekki fólki bjóðandi. Söguþráðurinn óskýr og illskiljanlegur. Ég spyr bara: Hvað var Hrafn Gunnlaugsson að reykja þegar hann gerði þessa mynd?
Annars gaman að sjá þegar nafn mitt er til á hinni óþrjótandi bíomyndasíðu www.imdb.com. Reyndar er ég skráður sem Ragnar L Gunnarsson og að ég hafi leikið í Hrafninn flýgur árið 1984. Það hefur alveg gleymst að segja mér frá því og ekki veit ég fyrir hvað L-ið stendur. Hitt er rétt að mér bregður fyrir í Stellu í framboði og er nafnið mitt á credit listanum þar
Flokkur: Menning og listir | Breytt 12.2.2008 kl. 02:24 | Facebook
Athugasemdir
Ég man eftir þessari mynd, sá hana í bíó í gamla daga, algjört rugl
Það verður gaman að fylgjast hér með
Kveðjur
Svanhildur Karlsdóttir, 25.1.2008 kl. 02:16
Já man vel að ég sá þessa mynd fyrst sem óharðnaður unglingur og þótti bólfarir þessar allar hinar undarlegustu. Síðan þá hefur nú mikið vatn runnið til sjávar en þessi mynd er alveg jafn leiðinleg .
Ólöf María Brynjarsdóttir, 25.1.2008 kl. 09:57
Ég hef ekki orðið svo frægur að sjá þessa mynd... verð greinilega að ráða bót á því. Skemmtilega ritaður pistill, lýst vel á þessa nýbreytni.
Siggi Heiðarr (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 00:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.