28.9.2007 | 20:51
Staurblindir íþróttafréttamenn.... á öllum miðlum
Þeir sem þekkja mig vita að ég er forfallinn fréttafíkill og þá sér í lagi íþróttafréttafíkill. Ég fylgist stöðugt með fréttum á netmiðlum víða að úr heiminum, dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi. Á sínum tíma skrifaði ég bæði fyrir blöðin og netmiðla um íþróttir, tók viðtöl og var með puttann á púlsinum. Einnig nam ég fjölmiðlafræði við FB fyrir um 10 árum síðan og lærði þar ýmislegt um störf fjölmiðla, þrátt fyrir að hafa eigi lokið því námi. En störf mín og nám eru eitthvað sem ég ætla ekki að stæra mig af hér og nú.
Það sem hefur vakið athygli mína, reiði og hneykslan í dag er það að ég hef varla séð tangur né tetur af þeim fregnum að s.l nótt hélt um 35 manna keppnishópur af stað til Kína til að taka þátt í Alþjóðaleikum þroskaheftra (Special Olympics) Þar sem málið er mér eilítið skilt, hef ég fengið að fylgjast með undirbúningi eins keppandans er hélt til Kína í nótt og upplifa aðeins tilhlökkunina hjá hópnum fyrir förinni erlendis. Nú fyrir skömmu var haldið HM í frjálsum íþróttum í útlöndum og þangað var hægt að senda mann og mús með tölvur, upptökuvélar og jafnvel að sýna beint frá öllum dögum keppninnar og fleiri dæmi mætti taka. Því þykir mér það með ólíkindum lélegt af fjölmiðlungum að geta ekki sagt frá för þessa frábæra fólks til Kína. Þó ekki væri nema að fylgja liðinu úr hlaði þegar haldið var af stað til Keflavíkur. Fróðlegt verður svo að sjá eftir helgi er leikarnir hefjast hvort fjölmiðlungar sjái sér fært að flytja fregnir af gangi hópsins í Kína. Ég allavega vona að íþróttafréttamenn þessa lands nái að krafla sig út úr fréttum af golfi, fótbolta og handbolta og geti séð jákvæðu og mannlegu hliðarnar í lífinu á næstu dögum og vikum meðan mótið stendur yfir. Hysjið nú upp um ykkur brækurnar íþróttafréttamenn.
Vil þó í lokin hrósa Kastljósinu fyrir umfjöllun sína í kvöld þar sem þeir tóku viðtal við þá fimleikamenn er munu keppa á mótinu. Þykir þó heldur hjákátlegt að þurfa að hrósa fjölmiðlafólki fyrir að segja frá því þegar fólk fer til keppni á Ólympíuleikum ( það má samt ekki kalla þetta ólympíuleika, heldur Alþjóðaleika þroskaheftra) Það þykir í meira lagi sjálfsagt er aðrir fara á Ólympíumót.
Athugasemdir
Var einmitt búin að bíða eftir fréttum um þetta mál og var mjög skúffuð yfir að hafa ekkert heyrt frá þessu. Finnst það fádóma lélegt að geta ekki sagt frá þessu flotta íþróttafólki okkar sem eru landi og þjóð til sóma. Tek undir það með þér að íþróttafréttamenn þurfi að standa sig betur og ýta undir stuðning hins almenna borgara við þetta frábæra íþróttafólk. Það gæti einnig vakið upp jákvæða umræðu um þennan þjóðfélagshóp sem því miður virðist fara oft undir í umræðunni.
Góður pistill, kveðja úr sveitinni
Olla
Olla (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 23:19
Heyr heyr!
Fanney (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 11:15
Fjórir íslenskir krakkar munu keppa í fimleikum á Special Olympics sem haldnir verða í Kína
"Við eigum eftir að taka þetta" Duglegur Helgi æfir þrisvar í viku fyrir leikana. Erlendur Kristjánsson þjálfari fylgist með Helga í hringjunum. [ Smelltu til að sjá stærri mynd ]Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur
ylfa@mbl.is
INNAN skamms munu 32 Íslendingar halda í mikið ferðalag til Kína í því skyni að taka þátt í Special Olympics sem haldnir verða þar í landi. Í þeim hópi eru fjórir einstaklingar á aldrinum 12-23 ára sem ætla að keppa í fimleikum.
Þau Helgi Magnússon, Jóhann Fannar Kristjánsson, Auður Lilja Ámundadóttir og Elva Björg Gunnarsdóttir hafa unnið hörðum höndum að því í sumar að æfa fyrir leikana. Ekki bara af því að það er skemmtilegt, heldur einnig vegna þess að í vor gengu þau á fund Íþróttasambands fatlaðra og skrifuðu undir samning þar sem þau hétu því að vera dugleg að æfa sig og stefna á að ná góðum árangri í Kína.
Ekkert stress bara spennaAuður Lilja er búin að vera í fimleikum í u.þ.b. sex ár en hún er 17 ára. Hún gerir æfingar á gólfi og jafnvægisslá en skemmtilegast finnst henni að keppa í stökki, en þá hoppar hún af stökkbretti upp á hest og stekkur svo aftur af.Helgi og Jóhann Fannar eru ekkert stressaðir fyrir leikana heldur segjast þeir hlakka gríðarlega mikið til. Helgi er 19 ára og hefur æft fimleika í fjögur ár en Jóhann er einungis 12 ára og því langyngsti keppandinn en samkvæmt íslenskum reglum um leikana má ekki senda út keppendur yngri en 12 ára
Hesturinn skemmtilegasturHelga finnst hesturinn skemmtilegastur en Jóhanni Fannari finnst skemmtilegast að æfa í hringjunum. Spurðir hvort þeir hafi einhvern tímann ferðast svo langt áður segir Helgi svo ekki vera en Jóhann Fannar svarar því strax til að hann hafi eitt sinn farið til London.Ljóst er að ekki vantar keppnisskapið í strákana en spurðir hvort þeir telji sig eiga eftir að vinna til verðlauna svara þeir strax játandi og Helgi bætir við: "Við eigum eftir að taka þetta!"
Íslenski hópurinn mun halda utan næsta fimmtudag og hefst dvölin á svokallaðri vinabæjarheimsókn en í ár er ekki um að ræða bæ, heldur hverfi nokkurt í Sjanghæ. Það mun kynna íslensku keppendurna og halda uppi skemmtidagskrá fyrir þá. Keppnin stendur yfir dagana 2.-11. október en íslensku keppendurnir munu spreyta sig í 8 greinum.
Sigurður Elvar Þórólfsson, 29.9.2007 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.