Færsluflokkur: Ferðalög
31.7.2008 | 06:23
Stóri dagurinn að renna upp
Mig langaði bara að henda hér inn nokkrum orðum áður en kemur að stóra deginum. Til að gera stutta ferðasögu enn styttri þá var formlega brúðkaupið s.l laugardag og gekk það afskaplega vel. Við vorum gefin formlega saman af einhverjum embættismanni og svo var etið og drukkið að því loknu. Ég drakk þónokkuð af Tequila og gerðist all ölur, sem er vel. Einna best kunni ég þó við það að tengdamóðir mín drakk íslenskt brennivín af stút og þótti gott. Ég lofaði Jeronimo tengdaföður mínum að ég skildi gefa honum hákarl með brennsanum er hann kæmi á klakann. Hann var nú ekki allskostar sáttur við brennivínið og gretti sig í hvívetna er hann bragðaði það. Á sunnudeginum fórum við svo á fótboltaleik, Pumas-Necaxa. Hörkuleikur og fín skemmtun. Erum svo aðeins búin að skoða borgina, en lítill tími hefur gefist í túrisma sökum anna við undirbúning. Í fyrramálið förum við svo til Cocoyoc þar sem brúðksupið fer fram og verðum þar fram á sunnudag. Vil því nota tækifærið og kasta kveðju á mannskapinn. Næst þegar ég skrifa hér verð ég harðgiftur maður.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.7.2008 | 23:00
Allt í sóma hér
Það hefur ekki gefist mikill tími til þess að plögga sig inn á netið síðustu daga. Hef smá stund milli stríða núna og ætla því að reyna að henda inn smá færslu núna.
Fyrst ber að geta þess að ferðin út gekk býsna vel, talsverð seinkun í Leifsstöð sem kom þó ekki að sök. Lenti á JFK flugvelli um kl 2100 að staðartíma, fékk mér hótelherbergi í nokkra tíma áður en ég tók leigubíl yfir á Newark flugvöll þaðan sem ég flaug til Mexico. Var lentur hér í borg á áætluðum tíma. Frá því ég kom hingað hafa allir dagar verið annasamir frá morgni til kvölds við undirbúning ( er það ekki korselett) Búin að vera vesenast í pappírsvinnu, velja lög fyrir kirkjuna og veisluna, borga hitt og þetta, versla föt o.fl. Þess ber nú að geta að það að fá pappíra stiimplaða eða gefna út hér í borg er ekkert gamanmál og tekur marga marga klukkutíma. Kerfið á Íslandi er barnaleikur miðað við þetta. Mamma, pabbi og Elín systir komu svo hingað út á fimmtudagskvöldið og erum við búin að reyna nýta tímann í að túristast svolítið en það hefur nú gengið upp og ofan sökum þess hve langt er á milli staða og hvað pappírsvinnan tekur langan tíma.
Í kvöld 26.júlí er svo fyrri hluti giftingarinnar. Þá mætir "sýslumaður" eða einhver embættismaður heim til Carmen ásamt túlki og gefur okkur saman formlega, svo er heljarinnar veisla á eftir með mat og drykk. Aðal kirkjuathöfnin er svo eftir viku klukkan 1200 að staðartíma þ.e 1900 að íslenskum tíma. Skrifa þessa færslu í miklu flýti svo ég hafi tíma til að slaka á og fá mér máski 1 kaldann í hinsta sinn áður en ég verð formlega giftur maður
Í lokin er gaman að geta þess að í gær vorum við að borða á flottum restaurant hér í bæ þegar Carmen benti mér á að maðurinn er sat á næsta borði var enginn annar en Luis Hernandez einn mesti markaskorari Mexíkósks fótbolta í gegnum tíðina. Var frægur fyrir sitt ljósa síða hár og þrumuskot. Fékk vitanlega mynd af mér með kappanum og reif í spaðann á honum
Smelli svo inn myndum síðar
Bið að heilsa á klakann
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.1.2008 | 02:06
Ferðasaga til næsta bæjar
Það er nú þónokkuð um liðið frá því ég sté fætur á skerið eftir að hafa ferðast heims um ból og ég held það sé kominn tími á ferðasöguna, sem þeir er hafa ekki hitt mig eftir heimkomuna bíða líklegast spenntir eftir. Þar sem ég var í 5 vikur þarna í Mexico D.f ætla ég nú bara að stikla á stóru og smella nokkrum myndum með. En þar sem ég á afar erfitt með að vera stuttorður vil ég vara lesendur við því að þetta gæti orðið löng frásögn.
Útferðin
Þetta byrjaði s.s að ég hélt af stað frá Stormskerinu góða þann 16.nóvember s.l í hraglandis rigningu og roki. Ferðinni heitið til New York og gekk það bara eins og í sögu (enda er þetta saga). Eftir að hafa fyllt út ótal eyðublöð í flugvélinni, beðið í 2 tíma í immigrantinu og reddað mér leigubíl upp á hótel í NY, settist ég niður á hótelbarnum og drakk Corona í gríð meðan ég horfði á NBA leik í sjónvarpi BNA manna. Daginn eftir ákvað ég að hvilast fram undir hádegi enda lúinn nokkuð eftir flug og tímamismun. Upp úr hádegi var haldið af stað í hádegisverð og að redda sér leigara uppá JFK flugvöll þar sem ég átti flug til Mexico með Delta airlines. Það gekk eins og í sögu sem og flugið sjálft. Til Mexico city var ég svo kominn rétt fyrir miðnætti að þeirra tíma og það urðu vitanlega miklir fagnaðarfundir þegar Carmen tók á móti mér. Það gekk reyndar ekki alveg þrautalaust fyrir sig því hún hafði beðið á vitlausu terminal eftir mér. Eftir að hafa hringt í móður hennar reddaðist það þó og við keyrðum áleiðiðs heim í íbúð er við höfðum tekið á leigu þar í bæ.
tunglið á hvolfi
Það fyrsta sem ég tók eftir þegar keyrt var um borgina var að tunglið var á hvolfi. Annars var það náttúrulega stærðin og fólksfjöldinn gríðarlegi sem vakti athygli sveitavargsins úr Borgarfirði. Fyrstu dagarnir voru teknir rólega. Kíkt á miðbæinn og á risastóra útimarkaði þar sem var hægt að kaupa allan andskotann. Þessir markaðir virtust vera á öðru hverju götuhorni og voru flestir á stærð við meðalstóra stórverslun á Íslandi. Þá fékk ég að berja augum er indjánar af Azteca þjóðflokki léku listir sínar á götum úti, börðu bumbur, dönsðu berfættir á lendarskýlum, mögnuðu seið og blésu illdauna reyk yfir þá er vildu losna við illa vætti úr sálu sinni. Sannarlega sérstök upplifun. Einnig var kíkt á söfn og m.a skoðað Frida Kahlo safnið sem var mjög fróðlegt
Pumas
Strax fyrstu vikuna var ákveðið að fara á knattspyrnuleik á Ólympíuleikvanginum þar sem Pumas tóku á móti Toluca í 8 liða úrslitum deildarinnar. En Pumas er einmitt eitt vinsælasta liðið í höfuðborg Mexico og er Carmen dyggur stuðningsmaður þess liðs. Ég var ekki lengi að fjárfesta í búningi liðsins er á völlinn var komið. Leikurinn var ógleymanleg upplifun fyrir undirritaðann sem hafði ekki áður farið á tuðrusparksleik erlendis. Ca 50 þúsund manns á vellinum og alveg brjáluð stemming
Fyrst helgina mína á erlendri grundu tóku strax við stórviðburðirnir. Fyrst var veisla þar sem fagnað var opnun nýrrar verslunar er vinkona Carmenar var að opna. Að henni lokinni var haldið í brúðkaup hvar var fagnað að kaþólskum sið. Tequila var boðið mannskapnum í hvívetna og víkingurinn frá landi ísa og elda þurfti vitanlega að sýna hvað í honum bjó og drakk þann görótta mjöð líkt og enginn væri morgundagurinn. Þegar nokkuð var liðið á veisluna tók brúðurin á það ráð að klifra upp á stól og gumi hennar hóf að fálma upp lærin á henni í leit að sokkabandi. Bandi þessu er svo kastað útí sal hvar allir karlmenn í veislunni keppast við að grípa það. Sá er grípur bandið góða á víst að vera næstur til að ganga í hnapphelduna en þetta ku vera vinsæll siður í kaþólskum brúðkaupum. Skemmst er frá að segja að ég greip bandið og hlaut ógnar mikið fagn að launum
Ég stuttorður?...
Ég ætlaði að vera stuttorður en það virðist ganga treglega. Í stuttu máli þá fór ég í svakalegt partý á risastóru heimili hárgreiðslumeistara Carmenar þar sem menn drukku Tequila og Mescal úr mjólkurglösum og ekki gat ég verið minni maður. Fetaði í fótspor Egils Skallagrímssonar, drakk mjöð varð ölur, dansaði súludans og kvað ferskeytlur á spænsku.
Virkir dagar fóru yfirleitt í það að kynna mig fyrir þarlendri menningu. Ég sá Mariachi spila á götum úti, borðaði taco og tortilla og drakk bjór á kvöldin, enda kostaði kippan bara 200 kr! Ég fór einnig á einhverskonar þjóðminjasafn Mexico og fræddist um sögu þeirra, fór á útgáfutónleika hjá Mexíkóskum kántrý söngvara og áfram mætti telja.
fræðileg Fullnæging!
En hafi ég verið uppveðraður af þessu öllu saman þá var það barnaleikur við hliðina á knattspyrnuleiknum sem ég barði augum er ég fór á Estadio Azteca leikvanginum. Sá ágæti leikvangur rúmar um 115 þúsund áhorfendur og ku vera 4 stærsti völlur í veröldinni. Völlurinn var nánast alveg troðfullur er við sáum Américas frá Mexico spila gegn Arsenal frá Argentínu. Ég sagði við einn vin minn að þetta hafi verið íþróttafræðileg fullnæging. Þess má geta að á þessum velli var það sem Diego Maradona skoraði með hönd guðs hér forðum daga
Við fórum svo í bátsiglingu í góðra vina hópi um ársprænu í Mexico kvöld eitt. Landslag og upplifun er minnti helt á myndir sem maður hefur séð af Feneyjum. Margt annað var brallað og vinir Carmenar voru duglegir að heimsækja okkur og verja tíma sínum með okkur og var það vel.
Baugur á fingur
7. desember var svo komið að stóru stundinni. Kvöldið byrjaði á því að við fórum á lucha libre kvöld og sáum mistico berjast. Að keppni lokinni héldum við á fínan veitingastað er hafði útsýni yfir alla borgina og var staðsettur á 15. hæð í byggingu einni. Þar var kvöldverður snæddur og er hann hafði runnið sína leið niður í iður okkar kraup ég á kné og baðst bónar og við settum upp hring. Heitbundin höfum við verið frá þeirri stundu og var því fagnað með því að panta Don perignon kampavín á kantinn. En bón minni var ekki lokið þar, því kvöldið eftir þurfti ég að krjúpa á kné öðru sinni og biðja föðurinn um hönd dótturinnar... á spænsku. Það var líklega erfiðasta og mest stressandi stund sem ég hef upplifað á ævinni. Ekki nóg með að ég væri ómálga á spænska tungu heldur var öll fjölskyldan mætt á svæðið og hlýddi á bón mína. Tengdó tók bón minni eins og best verður á kosi og hrósaði mér fyrir spænsku kunnáttu mína. Að því loknu var slegið upp matarveislu mikilli og skálað í Tequila
Mér var því gríðarlega létt er þessu öllu var lokið og ánægjan skein úr hverju andliti. Daginn eftir var svo haldið í ferð út fyrir Mexico city og pýramídarnir skoðaðir og við gerðum okkur lítið fyrir og hlupum uppá einn slíkann
flest tekur enda... því miður
Annað brullaup var svo á dagskránni síðustu helgina mína og einnig fórum við í svona túrista rútu og skoðuðum borgina með augum alvöru túrista.
Í stuttu máli má svo segja að heimferðin hafi gengið býsna vel. Sex tíma flug til NY, 7 tíma bið og bjórdrykkja þar og 6 tíma flug heim. Var svo böstaður með 4 Tequila flöskur í tollinum og komst öldungis og einungis með 1 slíka inn í landið við heimkomuna.
Þess má geta að það er komin dagsetning á brúðkaupið. 2. ágúst 2008 í Mexico hefur verið staðfestur og búið að bóka kirkjuna. Carmen flytur svo til Íslands í kjölfarið og veisla verður haldin á Fróni fyrir þá sem missa af bátnum til Mexico
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)